28. okt. 2002

Ég hóstaði svo mikið í nótt að ég gubbaði þannig að ég fæ ekki heldur að fara út í dag. Ég var að dunda mér með perlur í dag, ég bjó til sjúkrabíl og kranabíl úr þeim, svo las amma fyrir mig sögu en mér finnst svo gaman að láta lesa fyrir mig. Hún er líka að kenna mér að lesa. Mér finnst miklu skemmtilegra að læra að skrifa. Ég hef það hlutverk að leggja á borð fyrir kvöldmatinn og það finnst mér gaman og enn skemmtilegra þykir mér að setja diskana í uppþvottavélina.

29. okt. 2002

Ég vaknaði seint í dag, afi var farinn í vinnuna áður en ég vaknaði. Ég hjálpaði ömmu að hengja þvottinn á snúruna síðan fórum við á leikvöllinn sem er hérna rétt hjá, hann er skemmtilegur en ekki eins skemmtilegur og þar sem rörarenni- brautin er. Kvöldsagan í kvöld er Mjallhvít og dvergarnir sjö og amma sofnaði ekkert á meðan hún var að lesa.

30. okt. 2002

Ég vaknaði snemma í morgun. Afi sagði að ég hafi dottið úr rúminu í nótt en ég man ekkert eftir því. Þegar afi var farinn í vinnuna horfði ég á barnaefni í sjónvarpinu fram á hádegi en þá fórum við amma í stóra dótabúð. Ég mátti kaupa mér dót fyrir pening sem amma gaf mér því ég er búin að vera svo góður og þægur. Þegar við komum heim lék ég mér með nýja dótið sem er bíll og bílskúr svo fór ég að æfa mig að skrifa og Atli Már hjálpaði mér á meðan amma var að tala í síman og elda matinn. Eftir matinn fór ég í Bubba byggir og síðan að sofa eftir að amma las fyrir mig sögu.

31. okt. 2002

Ég vaknaði kl. 10.  Fékk mér þá jógúrt, brauð og kornflex. Þegar ég var búin að borða æfði ég mig í að skrifa því það er svo skemmtilegt. Svo tók bílaleikur við og sjónvarpið fram að hádegi. Þá fórum við amma í labbitúr. Um kl. 3 þegar Atli Már var búinn að vinna fórum við að versla fyrir helgina. Þegar við komum heim fór ég í tölvunna með Atla Má. Kvöldsagan í kvöld var Geiturnar þrjár.

1. nóv. 2002

Við afi sváfum út í dag og vöknuðum ekki fyrr en kl. 11. Afi þurfti ekki að fara að vinna í dag því það er frídagur í Þýskalandi. Eftir hádegi fórum við afi út að hjóla. Við hjóluðum á leikvelli og út á flugvöll að sjá allar flugvélarnar fara á loft, það þótti mér gaman. Við komum líka við í bakaríinu og keyptum sultubollu. Þegar ég kom heim æfði ég mig í að teikna og skrifa og horfði á teiknimyndir. Eftir kvöldmat vorum við Atli Már að fíflast svolítið og afi líka. Síðan las Atli Már fyrir mig söguna um Öskubusku og ég fór að sofa því mig hlakkar svo til að vakna á morgun því þá er nammidagur.

2. nóv. 2002

Loksins er komin nammidagur. Þegar ég var búinn að borða morgunmat mátti ég fara í skúffuna og fá mér nammi. Síðan fór ég með afa og ömmu út að hjóla. Fyrst hjóluðum við í Hofgarten þar sem rörarennibrautin er og vorum þar lengi, þá hjóluðum við niður að Rín og fengum okkur pulsu því ég og afi vorum svangir. Þegar við vorum búnir að borða hjóluðum við meðfram Rín áleiðis heim, ég var orðinn svolítið þreyttur þannig að ég fékk mér smá kríu á leiðinni. Mig langaði að fara aftur á róló svo við komum við á einum enn. Þar fannst mér voða gaman nema það var kóngulóarvefur á klifurgrindinni. Við vorum komin heim um fimm leytið því þá er farið að dimma og svo ætlaði afi að fara á tónleika. Við amma dunduðum okkur saman um kvöldið og horfðum á sjónvarpið. Ég mátti fara seint að sofa af því að það er laugardagur.

3. nóv. 2002

Ég vaknaði seint í dag af því ég fékk að vaka svo lengi í gær. Við fórum ekkert út í dag fyrr en eftir hádegi en þá fórum við afi út að hjóla meðan amma var að rembast við að koma heimasíðunni minni á netið, hún er svo mikill klaufi við það. Við afi fórum á róló, þar var gaman. Ég var að sulla í drullupolli og varð alveg rennandi blautur samt var ég í stígvélum og pollagalla. Ömmu finnst ég hafi stækkað síðan ég kom til Þýskalands, hún mældi mig og er ég orðin 103 cm og 17 kg. Ég fór í fýlu við ömmu af því ég fékk ekki eftirrétt því hann er uppáhaldið mitt, hún segir að fyrst þurfi maður að borða allan matinn. Hún setti fýlukarlinn í gluggan og þá fór ég í ennþá meiri fýlu og skreið upp í rúm og sofnaði. Ég vaknaði aftur kl 23 til að setja broskarlinn í gluggann (það má ég gera sjálfur þegar ég er hættur í fýlu) ég fór svo aftur upp í rúm að sofa (á millunni hjá afa og ömmu).

 

Til baka