20. okt. 2002

Pabbi, mamma, afi og amma létu undan mér í dag um að fara með ömmu til Þýskalands.  Mamma flýtti sér að setja fötin mín í tösku og síðan keyrðu þau okkur ömmu til Keflavíkur en við ætlum að sofa hjá Siggu frænku í nótt. 

21. okt. 2002

Amma vakti mig kl. 5 um nóttina til að fara í flugvélina. Ég var svo spenntur að ég vaknaði strax. Árni Jakob frændi keyrði okkur svo upp í flugstöð, hann gaf mér líka pening svo ég gat keypt mér flugvél hjá konunni í flugvélinni. Afi og Atli Már tóku á móti okkur í Frankfurt svo keyrðum við til Düsseldorf þar sem afi og amma eiga heima. Við vorum orðin svo þreytt þegar við vorum búin að taka upp úr töskunum að við pöntuðum pizzu að borða og ég var steinsofnaður klukkan átta.

22. okt. 2002

Ég vaknaði klukkan níu. Eftir morgunmatinn horfði ég á barnaefni í sjónvarpinu. Ég var ánægður þegar ég sá að Stubbarnir voru í sjónvarpinu en varð svo rosalega spældur þegar ég skildi ekki Stubbaþýsku. Eftir hádegi fórum við amma með lestinni í vinnuna hans afa og tókum bílinn því amma þurfti að kaupa svo mikinn mat. Mér fannst gaman í stóru búðinni, því þegar við vorum búin að kaupa mat leyfði amma mér að skoða dótið og fara á leikvöllinn sem er í búðinni. Þegar við komum heim fór ég að leika mér í Lego. Ég fór að sofa kl. 9.

 

23. okt. 2002

Ég vaknaði klukkan hálf níu. Ég horfði á barnaefni í sjónvarpinu á meðan amma var að strauja, þegar hún var búin að því fórum við í búðina að kaupa stígvéli handa mér og síðan fórum við í Hofgarten en þar er rosalega skemmtilegur leikvöllur með rörarennibraut. Þar var ég að leika mér í 3 tíma. Þegar við komum heim fór ég að leika mér með dótið því amma segir að ég megi ekki vera einn úti að leika mér. Þegar afi kom heim úr vinnunni fórum við í billjard og ég vann afa. Afi segir að ég sé duglegur að borða og ef ég haldi því áfram verði ég fljótari að stækka og verða sterkari. Ég fór upp í rúm kl. 9 og amma las fyrir mig sögu.

24. okt 2002

Í dag fórum við amma niður í bæ og keyptum ný náttföt handa mér. Þegar við komum heim hjálpaði amma mér að læra að skrifa, en það þykir mér skemmtilegt. Síðan fór ég að mála gluggamyndir af broskörlum og fýlukörlum ég málaði líka fugl sem ég setti á spegilinn hjá rúminu mínu. Ég fór ekki snemma að sofa.

 

25. okt. 2002

Ég vaknaði seint því ég var svo þreyttur. Amma leyfði mér að liggja í sófanum með teppi á meðan ég horfði á barnaefni í sjónvarpinu. Eftir hádegi fór amma að versla en ég var heima hjá Atla Má á meðan. Það fannst mér skemmtilegt því þá gat ég farið í xxxx leik í tölvunni hans Atla. Ég var rosalega duglegur að borða kvöldmatinn og líka áður en ég fór að sofa. Amma las sögu fyrir mig en hún sofnar alltaf á undan mér.

26. okt. 2002

Í dag vaknaði ég rúmlega 9. Þegar við vorum búin að borða morgunmatinn fórum ég, amma og afi niður í bæ með lestinni en það finnst mér gaman. Þar horfðum við á skíðakeppni. Síðan fórum við í búðir og keyptum vettlinga handa mér. Svo fórum við á leikvöllinn þar sem rörarennibrautin er. Þar vorum við góða stund svo fórum við heim með lestinni því það var komið svo mikill vindur og ég er með mikinn hósta. Heima var ég að leika mér í Lego. Eftir kvöldmatinn mátti ég vera í tölvunni hennar ömmu. Ég fór að sofa kl. 9:30

27. okt. 2002

Ég svaf lengi í morgun. Ég mátti ekki fara út í dag því ég hósta svo mikið. En það gerði ekkert til því það var svo mikill vindur úti að tréin fuku. Í dag kom strákur í heimsókn með mömmu sinni. Hann heitir Julian Tarik er minni en Halldór bróðir. Ég var voða góður við hann og sýndi honum dót. Amma fór í saumaklúbb í dag svo ég var bara heima hjá afa því Atli Már var að vinna. Við fórum í billjard og svo fékk ég að fara í tölvuna. Inga mamma Julians sýndi mér hvar ég get verið í Bubba byggi á netinu, alveg rosalega skemmtilegt. Við afi hituðum bara pulsur handa okkur í kvöldmat og síðan fór ég að sofa.

 

Til baka