18. nóv. 2002
Ég
vaknaði eldsnemma í morgun. Ég mátti ekkert vera að því að fá mér
fyrst í gogginn eins og ég er vanur því fótboltaspilið var svo spennandi.
Ég vildi heldur ekki klæða mig því í dag er náttfatadagur. Um níuleytið
komu Inga, Seydi og Julian Tarik í morgunmat til okkar, þau voru að koma frá
Tyrklandi og flugvélin þeirra lenti í Dusseldorf. Ég fékk mér morgunmat
með þeim og síðan kenndi ég Julian Tarik að leika sér, hann er svo
lítill ennþá að hann kann ekki bíló. Hann var í gamla rúminu mínu sem
var notað sem leikgrind og fékk ég að vera í því með honum. Þegar þau
voru farinn fór Atli Már í fótboltaspil með mér þangað til hann fór til
tannlæknisins, en þá tók amma við en hún kann ekkert í fótbolta svo ég
var að kenna henni en það gekk ekki vel. Amma vildi fara út en ég ekki
því í dag er náttfatadagur hjá mér. Ég fór í lego og byggði tvö hús,
bíla og fugla. Um sexleitið fór amma út í labbitúr, ég var svolítið
spældur samt vildi ég ekki fara með því það er náttfatadagur þó svo
amma skilji það ekki. En það var reglulega gaman að vera einn heima hjá
Atla Má, þá gátum við pínt hvorn annan svolítið án þess að amma segi
"strákar hættið þessum látum". Þegar amma kom heim fórum við
að borða og ég var duglegur eins og venjulega að borða. Eftir matinn fór
afi í fótboltaspil við mig og vann ég hann. Atli Már tók líka eitt spil
við mig. Eftir það átti ég að fara upp í rúm því klukkan var orðin
tíu, en ég vildi það ekki því ég vildi spila meira, en ég fékk engu að
ráða svo ég fór upp í rúm með fýlu.
19. nóv. 2002
Morguninn
leið eins og venjulega, horfa á sjónvarpið, ömmuskóli og leika mér. Ég
föndraði líka svolítið og pakkaði inn gjöfunum sem ég er búinn að búa
til. Eftir hádegi fórum við amma í lestina og fékk ég að fara í
risastóra lest. Við fórum í borg sem heitir Neuss og er rétt hjá
Dusseldorf. Á heimleiðinni komum við í búð að kaupa í kvöldmatinn og
þar fékk ég sultubollu, nammi namm. Þegar við komum heim hjálpaði ég
ömmu við að elda matinn og svo gengum við frá saman þegar allir voru
búnir að borða. Ég fékk að fara í tölvunna smástund áður en ég fór
að sofa. Afi las fyrir mig í kvöld. Núna þarf ég bara að sofa tvisvar
áður en pabbi og Halldór bróðir koma til okkar.
20. nóv. 2002
Ég
vaknaði kl. hálf tíu og skreið þá upp í rúm til Atla Más og kúrði
hjá honum smástund. Svo vildi ég fara fram og fara í fótboltaspil en það
var enginn til að spila við mig og þá varð ég reiður í smástund. Eftir
hádegi fór amma í búðina að kaupa mat fyrir helgina því hún kemst ekki
á morgun til þess eins og venjulega því þá förum við til Frankfurt að
sækja pabba og Halldór. Ég var heima hjá Atla frænda á meðan og það var
skemmtilegt því hann spilaði við mig fótbolta. Eftir kvöldmat fór ég í
bað og amma sagði að ég væri eins og soðkaka því ég var svo lengi að
leika mér í baðinu. Áður en ég fór að sofa hringdi ég í mömmu mína
til að segja góða nótt við hana. Amma fór með mér upp í rúm og las
fyrir mig sögu.
21. nóv. 2002
Ég
vaknaði eldsnemma í morgunn, því ég fór með ömmu og Atla Má til
Frankfurt að sækja pabba. Við erum svolítið lengi að keyra þangað en
það er allt í lagi því það er ekkert leiðinlegt að vera í bíl. Þegar
við komum á flugvöllinn sáum við að flugvélin var hálf tíma á eftir
áætlun svo ég þurfti að bíða ennþá lengur eftir að sjá pabba minn.
Þegar hann kom var ég svo ánægður að ég flaug í fangið á honum, en
Halldór bróðir vildi bara vera hjá pabba. Áður en við lögðum af stað
fengum við okkur hamborgara og amma og Atli Már urðu hissa þegar ég
kláraði ekki allan matinn minn. Síðan keyrðum við til Dusseldorf og þar
komum við við í vinnunni hans afa svo hann gæti heilsað pabba og Halldóri.
Þegar heim var komið fór pabbi í fótboltaspil með mér og það var
rosalega gaman. Við fengum pizzu í kvöldmat. Halldór var orðinn svo
þreyttur að hann fór strax að sofa en við hin ætluðum að horfa á Fred
Flinstone í sjónvarpinu en pabbi var orðinn svo sibbinn að hann dottaði í
sófanum og fór svo bara upp í rúm, ég fór með honum en kom eiginlega
strax aftur fram til að horfa á sjónvarpið en þá var Atli Már sofnaður
í sófanum. Þegar myndin var búin fór ég upp í rúm að sofa.
22. nóv. 2002
Ég
vaknaði um kl. 9. Það var svo gott að kúra hjá pabba í nótt. Hann
vaknaði rétt á eftir mér en Halldór svaf lengur, því hann var svo
þreyttur greyið. Ég byrjaði daginn á því að horfa á barnaefni, amma
stjanaði við mig og leyfði mér að liggja uppí sófa með teppi og borða
jógúrt þar, en venjulega má ég ekki borða í stofunni. Um hádegi fórum
við pabbi, Halldór, amma og Atli Már með lestinni niður í bæ. Ég sýndi
pabba búðina þar sem hægt er að leika sér og síðan skoðuðum við
jólamarkaðinn sem var opnaður í gær. Ég fékk að prófa nokkur leiktæki
sem eru sett upp á meðan jólamarkaðurinn er. Við fórum líka á matstofu
og þar fékk ég franskar og sprite. Á meðan Atli fór með afa að
sækja bílinn okkar því það er búið að laga klessuna á honum löbbuðum
við hin um gamla bæinn og þar hittum við trúð sem var að búa til dýr
úr blöðrum. Halldór fékk mús en ég vildi ekki fá neitt dýr. Síðan
löbbuðum við í Hofgarten á róló. Atli hitti okkur þar. Ég renndi mér
í rörarennibrautinni og hjálpaði Halldóri að renna í
smábarnarennibrautinni. Ég var orðinn svangur aftur svo ég fékk jógurt og
banana sem amma var með í töskunni sinni. Við fórum líka á trambólin og
fleiri leiktæki. Atli Már og pabbi fóru líka að leika sér abba babb. Svo
kom myrkur og þá löbbuðum við aftur í bæinn og hittum afa. Þar fengu
fullorðu eitthvað ógeðslegt að drekka en ég fékk heitt kakó og Halldór
saft. Ég, pabbi, afi og Atli Már fórum heim á bílnum en amma og
Halldór fóru með lestinni. Afi eldaði kjúkling handa okkur því það er
uppáhaldsmaturinn minn, síðan fengum við Halldór sparieftirrétt sem er
karmellubúðingur. Við vorum ekki búin að borða fyrr en rúmlega 9 en þá
fór amma að hátta Halldór og láta hann fara að sofa, á meðan háttaði
ég mig. Þegar Halldór var kominn í rúmið burstaði amma tennurnar mínar
og fór með mér uppí rúm og las fyrir mig tvær sögur.
23. nóv. 2002
Ég
vaknaði um hálf tíu og fór þá fram til ömmu, afa og Halldórs en hann var
að horfa á Stubbana. Við Halldór fengum okkur graut í morgunmat og fórum
síðan að leika okkur. Afi vakti pabba því þeir ætluðu að fara til
Mönchengladbach á fótboltaleik. Þegar þeir voru farnir fórum við amma og
Halldór í búðina því í dag er nammidagur. Ég vildi ekki fá mjög mikið
nammi því það skemmir tennurnar mínar. Þegar við komum heim og sá að
Atli Már var farinn í vinnuna varð ég spældur því ég ætlaði í
fótboltaspil við hann. Á meðan Halldór fékk sér lúrinn sinn fór ég í
tölvuleik sem ég fékk með kornflexpakka. Þegar hann vaknaði aftur fengum
við okkur að borða og síðan fórum við út. Fyrst fórum við með bílinn
í vinnuna til Atla og löbbuðum þaðan á róló og vorum þar lengi.
Halldór vildi labba heim og mátti ég þá sitja í kerrunni MINNI. Þegar
Halldór var orðinn þreyttur máttum við báðir vera í kerrunni. Við
elduðum okkur kjötbollur í kvöldmat og vorum við báðir duglegir að
borða. Eftir matinn setti amma Halldór í rúmið en ég fór í Lego. Þegar
Halldór var sofnaður kúrðum við amma saman í sófanum og horfðum á video
því ég vildi ekki fara að sofa fyrr en pabbi kæmi heim. Þeir komu ekki
heim fyrr en klukkan tíu og fóru þá að horfa á enska boltann sem Atli Már
tók upp fyrir þá. Ég mátti horfa með þeim því uppáhaldsliðið mitt
var að spila en ég steinsofnaði áður en leikurinn var búinn.
24. nóv. 2002
Ég
vaknaði ekki fyrr en rúmlega tíu. Ég horfði á barnaefni fram að hádegi
en þá fór ég að borða. Eftir hádegi fóru afi og pabbi út að hjóla en
ég vildi ekki fara með. Á meðan þeir voru úti og Halldór sofandi
hjálpaði ég ömmu við að taka til og ryksuga. Afi og pabbi komu aftur heim
um hálf fjögur og þá fór ég með þeim út á fótboltavöll að spila
fótbolta. Þegar við komum heim fór ég bara að leika mér. Ég fór að
sofa fljótlega eftir kvöldmat.
Til baka