11. nóv. 2002

Eftir morgunmat horfði ég á barnaefni í sjónvarpinu, síðan setti ég upp bílabrautina mín og lék mér með hana fram að hádegi en þá fékk ég mér að borða. Svo fór ég með afa, ömmu og Atla Má með bílinn á verkstæði. Maðurinn á verkstæðinu gaf mér nammi því ég var svo góður að bíða meðan hann skoðaði bílinn. Við fengum lánaðan bíl á meðan verið er að gera við okkar bíl, það er rosalega flottur bíll.  Þegar við vorum búin að þessu og skutla afa aftur í vinnuna um kl. 4 var ég orðinn svo svangur að amma bauð mér og Atla á Mc Donalds og þar borðaði ég hamborgara með frönskum. Á leiðinni heim komum í búð að kaupa í matinn. Þegar heim var komið fékk ég að fara í tölvuna en ég var svangur því amma keypti bara einn hamborgara handa mér svo ég fékk mér kökur og djús. Þegar ég var hættur í tölvunni fór ég að æfa mig í að skrifa, ég kann núna að skrifa nafnið mitt. Ég sullaði líka í eldhúsvaskinum og hjálpaði ömmu að elda lasagne. Ég át á mig gat því það var svo rosalega gott en þó ég væri svo saddur vildi ég fá minn eftirrétt. Amma fékk mig til að geyma helminginn af honum (mjólkurgrautur) því hún var hrædd um að ég færi að gubba því ég var búinn að borða svo mikið. Eftir matinn hjálpaði ég ömmu að ganga frá og fór svo í tölvuna. Þar var ég á Disney og ég vildi skrifa nafnið mitt en ég fann hvergi ó svo ég bað afa um að hjálpa mér en þá sagði hann að ég mætti ekki skrifa nafnið mitt þarna. (senda bug report) svo hann fann fyrir mig póstkort sem ég mátti senda til pabba og mömmu og þar gat ég skrifað nafnið mitt og núna kann ég að skrifa ó á tölvuna. Ég fór með afa upp í rúm að sofa um kl. 9:30 en ég sofnaði ekki fyrr en amma kom upp í rúm.

12. nóv. 2002

Í dag vaknaði ég snemma því það komu vinnumenn að gera við glugganna. Þegar ég var búinn með morgunmatinn fylgdist ég með þeim að gera við. Ég fékk mér mjólkurgraut áður en við amma fórum út eftir hádegi. Við fórum á róló og líka í búðina þar sem má leika sér. Ég mátti kaupa mér töffarapeysu og velja hana alveg sjálfur. Ég mátaði 5 eða 6 peysur áður en ég gat ákveðið hvaða peysu ég vildi, ég valdi peysu með kappakstursbíl á. Ég vildi líka kaupa töffarapeysu handa Halldóri en amma vildi það ekki. En hann fær líka peysu þegar hann kemur og getur mátað hana, því hann hefur stækkað líka því hann er líka duglegur að borða. Ég ætla að hjálpa honum að velja peysu. Þegar við komum heim skrifaði ég smávegis og fór síðan að hjálpa ömmu að elda mat. Við steiktum fisk og suðum kartöflur. Ég borðaði svo mikið að ég gat ekki fengið mér eftirrétt. Áður en ég fór að sofa mátti ég horfa á videospólu með Atla í Batmanfötunum og okkur Halldóri í sumar. Svo fór ég bara upp í rúm að sofa.

13. nóv. 2002

Í morgun var ég í ömmuskóla, að læra stafina og skrifa. Mér finnst miklu skemmtilegra að skrifa. Þegar skólinn var búinn fór ég að leika mér með gatabrettið og gerði tvær stórar myndir. Eins fór ég í Lego. Eftir hádegi fórum við á róló. Þar var enginn að leika sér, kannski af því það var rigning. Ég fór bara í stígvéli og pollagalla og skemmti mér vel á róló mátti sulla eins og ég vildi. Á leiðinni heim hljóp ég og stappaði í alla polla sem ég sá. Þegar við komum heim varð Atli Már að halda á mér frá stigaganginum og inn á bað því ég var svo skítugur. Þegar búið var að þvo mér fór ég í tölvuna. Þegar kvöldmaturinn kom fór ég inn í herbergi í smá fýlu því amma eldaði ekki fisk heldur pulsurétt. Ég var ekkert lengi í fýlu því ég er að hætta því  svo ég fór fram og borðaði mikið og eftirrétt líka. Þegar ég var búinn að hátta mig og brjóta saman fötin mín mátti ég leika mér frammi í hálftíma, síðan skrúbbaði amma tennurnar mínar og fór með mér upp í rúm og las fyrir mig sögu og svo bara sofnaði ég.

14. nóv. 2002

Þegar ég vaknaði var ég dauðsvangur, svo ég fékk mér jógúrt og kornflex og auðvita lýsi en það tek ég á hverjum degi. Síðan horfði ég á barnaefni til kl. 11, en þá byrjaði skólinn en hann var ekki lengi því ég var skólaþreyttur, svo ég fór að mála gluggamyndir. Eftir hádegi fórum við amma út og ég mátti ráða hvert við færum. Ég vildi fara í 10 lestar og svo í búðina að leika mér. Við fórum ekki í svo margar lestir bara 4, en við fórum í búðina. Þar var strákur í kúlubananum og bara ein kúla svo amma keypti kúlu handa mér svo við gætum leikið okkur saman. Þetta var skemmtilegur strákur og við lékum okkur líka saman í bílalestinni. Mamma hans gaf okkur nammi og auðvitað sagði ég danke schön. Þegar ég var hættur að leika mér í búðinni fórum við í matarbúðina að kaupa inn fyrir helgina. Afi kom þangað að sækja okkur og hann var svo góður við mig, keypti handa mér barnaegg í eftirrétt og leyfði mér að fara tvisvar sinnum í bíl sem hreyfist þegar peningur er settur í. Hann ætlaði líka að kaupa handa mér sultubollu en þær voru búnar svo ég fæ bara næst þegar við förum í búðina. Á heimleiðinni fékk ég mér kríu. Ég fékk pizzu í kvöldmat og það þótti mér ekkert sérstaklega gott kannski af því ég var ekkert voðalega svangur því áður en við fórum í matarbúðina fékk ég hamborgara með frönskum. Um kvöldið föndruðum við amma svolítið svo fór ég með afa uppí rúm og hann las fyrir mig Drésa.

15. nóv. 2002

Ég vaknað um kl. 10. Fór þá strax að horfa á barnaefni en nennti því ekki lengi og fór því að leika mér. Mig langaði að fara aftur í lestina og fara á Heinrik Heine og fara í allar búðirnar og kaupa dót en amma vildi það ekki. Það fannst mér verulega fúlt. Þegar við ætluðum út var farið að rigna svo við hættum við það en fórum að föndra í staðinn. Við gerðum gluggamyndir og svo gerðum við líka nokkrar jólagjafir en það má enginn vita hvað það er fyrr en jólin koma. Amma segir að ég sé voðalega flinkur að klippa út myndir. Við tókum okkur pásu á meðan amma eldaði kvöldmat, á meðan hún gerði það horfði ég á teiknimyndir sem amma á. Þegar við vorum búin að borða héldum við áfram að föndra til kl. 9, en þá átti ég að fara að sofa, en ég vildi það ekki. Amma sagði að ég mætti ráða hvort ég færi strax upp í rúm og þá mundi hún lesa fyrir mig eða ég mundi hátta mig og vera frammi í hálf tíma í viðbót. Ég vildi frekar vera frammi, en þegar ég átti svo að fara upp í rúm vildi ég það ekki en fór samt með látum og tók flugvélina mína með mér. Flugvélin mín bilaði þannig að ég fór fram með hana. Afi sagðist ætla að reyna að laga hana og skrúfaði hana í sundur en þá hélt ég að hann væri búinn að eyðileggja hana og fór í fýlu upp í rúm og vildi ekkert tala við ömmu og afa, en af því að ég er að reyna að hætta að fara í fýlu kom ég fljótlega fram og bað þau fyrirgefningar, þá var afi búinn að laga flugvélina og gaf ég honum knús fyrir. Amma fór síðan með mér upp í rúm og kúrði hjá mér þangað til ég sofnaði. Mér finnst svo leiðinlegt að hafa verið svona óþekkur í kvöld því ég vil ekki vera óþekkur en stundum er erfitt að vera ekki óþekkur.

16. nóv. 2002

Jibbí, núna er nammidagur. Atli Már fór í búðina að kaupa nammi handa mér á meðan ég borðaði morgunmatinn. Síðan skreið ég upp í sófa með púða og teppi og horfði á barnaefni á meðan ég var að borða nammið mitt. Eftir hádegi fórum við afi út að hjóla. Við vorum ekki mjög lengi því það var svolítið kalt og rigning.  Restina af deginum eyddi ég í að leika mér og föndra. Ég fékk rosalega góðan kvöldmat en það er kjúklingur sem afi eldar. Ég borðaði svo mikið að ég gat varla hreyft mig þegar ég var búinn með eftirréttinn. Ég var svo þreyttur eftir matinn að ég vildi fara strax að hátta og sofa. Í kvöld las afi fyrir mig Drésa.

17. nóv. 2002

Þó svo að ég sofnaði snemma í gær vaknaði ég ekki fyrr en um kl. hálf tíu. Þegar ég var búinn að borða morgunmatinn fór ég í bíló og lego.  Eftir hádegi fórum amma, afi og ég í dýragarð. Þar fannst mér rosalega gaman. En mér fannst svakalega vond lykt í húsunum þar sem apakettirnir og dvergflóðhestarnir eiga heima. Ég var líka svolítið smeikur við ljónin, því það voru svo mikil læti í þeim og hávaði. Það sem mér fannst skemmtilegast í dýragarðinum var höfrungarnir. Þeir voru með sýningu með þjálfaranum sínum sem lét þá stökkva yfir stöng. Þeir fóru í boltaleik og voru svo duglegir að grípa bolta og kasta honum aftur til þjálfara síns. En þegar þeir spörkuðu fótboltum til áhorfenda urðu margir blautir því þeir skvettu svo mikið. Þeir gerðu líka margar aðrar kúnstir sem ég segi ykkur frá þegar ég hitti ykkur. Við fórum heim þegar dýragarðinum var lokað enda var þá komið myrkur. Ég var svo þreyttur enda búinn að labba allan daginn að ég steinsofnaði í bílnum og vaknaði ekki fyrr en amma bar mig inn. Á meðan amma var að elda fór ég að rannsaka skúffurnar hjá Atla Má, þar fann ég fótboltaspil sem mig langar að fá, amma sagði að ég yrði að spyrja Atla hvort ég mætti fá það en hann var ekki heima. Ég var nú ekki alveg sáttur við það en lét mig hafa það. Þegar Atli Már kom heim spurði ég hann, hann sagði að ég mætti fá það strax og ég vakna á morgun því nú væri komið kvöld og allir eiga að fara að sofa, en ég mátti samt hafa það hjá rúminu mínu. Ég fór sæll að sofa því ég vill flýta mér að sofa svo ég geti farið í fótboltaspil.

   

 

Til baka